
Aftur til leiting
Erna Jónsdóttir, Helga Dögg Sverrisdóttir, Margrét Þóra Einarsdóttir og Svanhvít Hreinsdóttir
Ísland liggur í Norður- Atlantshafi. Landið er umlukið hafi og liggur á Atlandshafshryggnum. Íslendingar eru um 340 þúsund talsins. Flestir búa á höfuðborgarsvæðinu eða um 215 þúsund manns.
Ísland er 102.800 ferkílómetrar að stærð. Miðhálendi landsins er um 40% af landinu og er ekki byggilegt. Ísland er önnur stærsta eyjan í Evrópu.
Jöklar á Íslandi þekja 11% af flatarmáli Íslands. Vatnajökull er stærstur og er einnig stærsti jökull Evrópu. Langjökull er næststærstur og síðan Hofsjökull. Jöklarnir breytast og minnka á næstu áratugum.
Íslandi liggur á flekaskilum Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans. Þess vegna eru eldgos og jarðskjálftar algengir. Víða á Íslandi er heitt vatn í jörðu sem nýtt er til upphitunar.
Á Íslandi eru um 130 eldfjöll og 18 þeirra hafa gosið eftir að Ísland byggðist. Sum eldfjöll gjósa reglulega eins og Hekla og Krafla.
Á Íslandi er töluð íslenska sem er germanskt tungumál. Íslenska hefur lítið breyst frá víkingatímanum og því skiljum við texta sem voru skrifaðir fyrir 1000 árum.
Landnám Íslands er talið hafa byrjað 874 þegar Ingólfur Arnarson og Hallveig Fróðadóttir námu land. Landið komst undir Noreg 1262 og síðar Danmörku 1380. Ísland varð sjálfstætt ríki 1944.
Á Íslandi er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Æðsti maður ríkisstjórnar er forsætisráðherra. Forseti Íslands er þjóðhöfðingi landsins.
Höfuðborg Íslands heitir Reykjavík og þar búa 125 þúsund manns. Kópavogur, Hafnarfjörður og Akureyri eru þrír stærstu bæir á eftir Reykjavík. Þjóðhátíðardagur Íslands er 17. júní.
Helstu atvinnuvegir eru sjávarútvegur og ferðamannaiðnaður. Aukning ferðamanna til landsins hefur gert þá atvinnugrein mikilvæga fyrir þjóðina.